Er þetta aðeins sá hluti veltunnar, sem er uppi á borðinu?

Nú veit enginn, hve stór hluti veltunnar í umræddum geira er neðanjarðar, en þrálátur orðrómur um að í greininni sé meiri neðanjarðarstarfsemi en í mörgum öðrum greinum. Án þess að ég gefi mér neitt í því sambandi, væri fróðlegt að fá upplýst, hvort sú hagstærð, sem nefnd er til sögunnar í fréttinni, miðist eingöngu við þann hluta veltunnar, sem gefinn er upp til skatts.
mbl.is Milljarða velta tengd hestum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þar með fáum við það göfuga hlutverk að greiða meira til sjóða ESB en við fáum úr þeim.

Þau ríki sem hafa þjóðartekjur yfir meðaltali ESB ríkja fá það göfuga hlutverk að greiða meira til sambandsins en þau fá í styrki úr hinum ýmsu sjóðum þess. Sumum þykir þetta göfugt hlutverk, þar sem þetta sé svo göfugur klúbbur. Búast má við, að þjóðartekjur mælist verr, eftir því sem stærri hluti hagkerfisins er neðanjarðar. Því sleppa þær þjóðir hlutfallslega best frá því að borga til sambandsins, þar sem mest er svikið undan skatti. Maggie Thattcher hafði þetta síðarnefnda kannski í huga, þegar hún knúði fram undanþágu fyrir Breta, varðandi greiðslur til sambandsins. Bretar greiða því minna til þess, en þeir myndu ella gera.
mbl.is Ísland í ríkari helmingi Evrópu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einangrun Íslands.

Fyrr á öldum var Ísland einangrað vegna skorts á skipakosti til siglinga. Öldum saman sáu útlendingar okkur fyrir samgöngum við umheiminn. Þetta varð okkur stundum til bjargar, þótt oft félli fólk úr hor og sjúkdómum tengdum vannæringu. Árið 1772 skrifaði skólameistari Skálholtsskóla bréf, þar sem hann kvartaði undan einangrunarstefnu Íslendinga, sem klæddu sig öðru vísi en aðrir Norðurlandamenn og töluðu mál, sem væri orðið öðrum Norðurlandabúum óskiljanlegt. Taldi hann affarasælast að við tækjum upp danskan klæðaburð og danska tungu. Þegar "útrásin" var í hámarki töluðu ýmsir snillingar um nauðsyn þess að afleggja íslenska tungu og nota ensku í hennar stað til að auðvelda alþjóðaviðskipti Íslendinga. Í anda póstmódernisma eru íslenskufræðingar menntaðir við HÍ hættir að leíðrétta "málvillur", því að sögn er ekkert slíkt til. Hlutverk íslenskufræðinga er nú að skrásetja "þróun tungumálsins". Allt eru þetta dæmi um að leggjast flatir fyrir útlendingum.

Öðru máli gegnir um fjárfestingu erlendra manna á Íslandi. Án slíkra fjárfestinga hefðu Íslendingar orðið seinni til efnahagslegra framfara en raun varð á. Nægir að benda á "fjárfestingar" hernámsliðsins á stríðsárunum, sem skoluðu þjóðinni jafnvel fullhratt uppá strendur nútímalandsins. Mátti litlu muna, að þá biði þjóðin skipbrot og missti viljann til sjálfstæðrar tilveru. Vildu margir, að Ísland yrði 51. ríki Bandaríkjanna, eftir að Alaska og Hawai urðu 49. og 50. ríkið. Nú er sjónum beint til Evrópu. Vilja sterk öfl, að Ísland verði hluti af evrópsku stórveldi, af því að þannig megi best tryggja frið í Evrópu. Ég kannast ekki við, að Ísland hafi nokkurn tímann ógnað friði í Evrópu.

Spyrja má, hvort einangrunarstefna sé óþarflega svæsin, þegar illa er tekið á móti þeim, sem vilja fjárfesta á Íslandi. M.a.s. fjárfestingar útlendinga í landareignum eru ekki eins hættulegar og margir virðast halda. Miklar takmarkanir eru á ráðstöfunarrétti bænda og annarra jarðeigenda yfir landi sínu. Einnig er vandséð, að Kínverjinn hefði með nokkrum hætti getað flutt Grímsstaði á Fjöllum með sér til Kína, þótt honum hefði ofboðið forsjárhyggja hérlendra stjórnvalda í "umhverfismálum". Vera má, að hann hefði viljað flytja inn Kínverja í stórum stíl til að byggja upp ferðaþjónustu á Grímsstöðum, er vandséð, að Útlendingastofnun hefði orðið honum leiðitöm við innflutning á fólki. Annars stendur fólksfæð Íslendingum fyrir þrifum. Væru hér tvöfalt fleiri skattgreiðendur, yrði t.d. auðveldara að kosta nauðsynleg samgöngumannvirki. Fólksfæð er með réttu eða röngu talin hamla uppbyggingu járnbrautakerfis á Íslandi, þótt járnbrautarsamgöngur væru að því leyti hagfelldar, að ekki þyrfti að knýja samgöngutækin með innfluttu jarðefnaeldsneyti.

En íslenskudeildin í HÍ þarf að rétta úr sér og standa í lappirnar. Allar þjóðir, sem vilja halda áfram að vera til, hafa opinbert ritmál með samræmdri stafsetningu. Allar þjóðir, sem bera virðingu fyrir sjálfri sér, stunda móðurmálskennslu í skólum og gefa henni mikið rými.


mbl.is Erlendum viðskiptamönnum ekki tekið fagnandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forstjóri Kauphallarinnar varaði við áherslu á hert eftirlit í árslok 2004.

Sjálfur hef ég ekki lesið "Sannleiksskýrsluna", en það sem ég hef heyrt af henni, bendir til þess, að um vandaða vinnu hafi verið að ræða hjá fólki, sem falið var vandasamt verk. Ekki veit ég hvort skýrslan sú  gerði að umfjöllunarefni, það sem ég vil ræða núna.

Þegar ég var að taka til hjá mér fyrir nokkru, rakst ég á gulnað Viðskiptablað frá 10. og 17. desember 2004. Báðar dagsetningar eru á þessu sama tbl., sem hlýtur að gefa því nokkurt söfnunargildi. Vitnað er til vefsíðunnar www.vb.is. Þegar farið er á vefsíðu þessa, kemur í ljós, að eldri tölublöð en frá árinu 2007 er ekki að finna þar. En í þessu gulnaða eintaki, sem skolaði á fjörur mínar, getur að líta viðtal við Þórð Friðjónsson, þáverandi og núverandi forstjóra Kauphallarinnar á Íslandi. Gefum honum orðið:

"Það er ábyggilega algjört einsdæmi í nokkru þróuðu hagkerfi að útrásarfyrirtæki hafi á nokkrum árum aukið verðmæti sitt um sem nemur 50% af landsframleiðslu. Þetta er örugglega heimsmet í útrás" ...."Mér finnst það ákveðið áhyggjuefni í umræðunni í hve mikilli sókn eftirlitsþátturinn hefur verið. Það á að vera efst á blaði að skaða ekki þá þætti í umhverfinu sem keyra okkur áfram og skila okkur árangri"

Takið eftir, að þarna er þáverandi - og núverandi - forstjóri Kauphallar Íslands að vara við meira eftirliti með fjármálamarkaðnum í árslok 2004, einmitt þegar enn var tími til að stinga á kýlinu.

Blaðamaðurinn, Ólafur Teitur Guðnason, spyr: "Þrátt fyrir þennan styrk sem þú nefnir er næstum helmingur allrar hlutabréfaveltu og næstum helmingur alls verðmætis hlutabréfa í kauphöllinni í aðeins þremur fyrirtækjum: Íslandsbanka, KB banka og Landsbankanum. er það í lagi?"

Forstjóri Kauphallarinnar svarar: "Það væri í sjálfu sér ágætt að fá fleiri fyrirtæki inn á markaðinn og nokkur fyrirtæki hafa lýst yfir áformum um það, t.d. Hagar, Avion Group, Tölvumyndir og jafnvel Eimskip, auk erlendra fyrirtækja sem hafa sett sig í samband við okkur. Á hinn bóginn hefur markaðurinn verið að dýpka samkvæmt nánast öllum mælikvörðum. Varðandi fjöldann þá hafa fyrirtæki hér verið að styrkja sig með því að kaupa talsvert af skráðum og óskráðum fyrirtækjum, þannig að fjölbreytnin á bak við þau hefur aukist."

Er maðurinn að halda því fram, að eignarhaldsfélög eins og bankarnir voru þarna orðnir með krosseignatengslum og fleiri viðvörunarmerkjum, auk annarra þekktra "eignarhaldsfélaga", hafi verið jákvæð fyrirbæri og "aukið fjölbreytnina" á markaðnum?

Blaðamaður spyr: Þegar umsvifin aukast hlýtur þörfin fyrir öflugt eftirlit að aukast. Það hefur dálítið borið á gagnrýni þess efnis að eftirlitið sé ekki nægilega öflugt, til dæmis varaðandi innherjaviðskipti. Hvernig svarar þú því?

Kauphallarforstjórinn svarar: "Innherjamálin eru alfarið á vegum fjármálaeftirlitisins. Við fylgjumst bara með og gerum eftirlitinu viðvart ef við teljum tilefni til. En innherjaviðskipti eru flókinn og erfiður málaflokkur alls staðar í heiminum. Við höfum eflst á þessu sviði og getum borið höfuðið hátt." (það var nefnilega það! innskot mitt) "Vandamálin sem hafa birst á öðrum mörkuðum eru miklu stærri og alvarlegri en það sem við höfum séð hér, þrátt fyrir þessar umkvartanir sem berast um að herða megi á hér og þar."

Semsagt, allt í lukkunnar velstandi hérlendis, þótt sums staðar erlendis geti verið vandamál á þessu sviði. Við erum fremst og best, það gerir víkingaeðlið!

Þá spyr blaðamaður:  Getur verið að það sé einmitt vegna þess að vandamálin komi ekki upp á yfirborðið hér?

"Ég held að það sé alrangt. Við höfum hér rafrænt eftirlitskerfi sem er það sama og í kauphöllum á öllum Norðurlöndunum og við könnum allar viðvaranir sem þetta kerfi gefur um viðskipti sem kunna að vera vafasöm". ....."Einkenni okkar eru sveigjanleiki, frumkvæði og viðbragðssnerpa í efnahagslífinu. Við höfum náð gríðarlegum árangri hvað þetta varðar og þetta hefur meðal annars skilað þessum mikla árangri í útrásinni, sem hefur skilað okkur gríðarlegum efnahagslegum ávinningi og verðmætasköpun í þjóðarbúinu" (hverjir skyldu hafa notið þeirrar "veriðmætasköpunar" þegar upp var staðið? - innskot mitt) ..."Við þurfum að mínu viti að gæta okkar mjög vel á því að fara ekki í hinar öfgarnar og skaða þetta umhverfi sem hefur skapað svo mikil verðmæti fyrir okkur á undanförnum árum. Mér finnst það ákveðið áhyggjuefni í umræðunni að undanförnu í hve mikilli sókn eftirlitsþátturinn hefur verið."

Takið eftir því, að þetta sagði þáverandi og núverandi forstjóri Kauphallar Íslands í árslok 2004, þegar enn var tími til að bregðast við. Þar hjó sá er hlífa skyldi! Hann talar líka um bóluna, sem blásin var upp á þessum tíma með innherjaviðskiptum, krosseignatengslum og markaðsmisnotkun, og  blasti við öllum, sem vildu sjá m.a. erlendum aðilum, hann talar um þetta sem "verðmætasköpun"!!!

Í framhaldi af þessum orðum Kauphallarforstjórans spyr blm.: Finnst þér við komin hættulega nálægt því að stífla vélina?

Svar Þórðar Friðjónssonar: "Mér hefur sýnst - þegar ég hef rætt þessi mál í ýmsum nefndum og öðru starfi - að pendúllinn hafi sveiflast. Hagkerfið hefur verið endurskapað á síðustu 15 árum út frá sjónarmiðum um frelsi og sem mest svigrúm fyrir athafnasemi." (ekki laust við trúarlega afstöðu. Varla hefur hugmyndafræðilegur ágreiningur milli Þórðar Friðjónssonar og Davíðs Oddssonar valdið því að sá síðarnefndi lagði Þjóðhagsstofnun niður - innskot mitt) "Þetta hefur skilað gríðarlega miklum árangri og við höfum náð þeim þjóðum sem standa fremstar varðandi sveigjanleika, frumkvæði og snerpu. Áður fyrr vorum við alltaf 10-20 árum á eftir þeim." (betur að svo hefði verið áfram - innskot mitt)  "Núna finnst mér pendúllinn hafa farið dálítið til baka í þá áttina að það þurfi að efla regluumhverfið og það þurfi jafnvel að gera með lögum, boðum og bönnum. Mér finnst umræðan vera gengin óþægilega langt í þessa átt. Við eigum að hafa sjónarmiðið um traust og trúverðugleika að leiðarljósi en um leið verður að mínu viti að vera efst á blaði, að skaða ekki þá þætti í umhverfinu sem keyra okkur áfram og skila okkur árangri."

Þessi orð vekja með mér kjánahroll. Getur verið, að þáverandi og núverandi forstjóri Kauphallarinnar hafi barist innan kerfisins með oddi og egg gegn auknu eftirliti með fjármálastarfsemi í landinu, einmitt þegar forstjórar bankanna og "eignarhaldsfélaganna" voru búnir að taka stefnuna á að byggja upp Ponzi skím, pyramída, sem var holaður að innan og skilaði gerendum gífurlegum bónusgreiðslum, jafnframt því sem þeir sugu úr honum innihaldið og komu fyrir tryggilega í aflandsskattaskjólum?

Fjallaði "Sannleiksnefndin" ekki um þátt núverandi forstjóra Kauphallarinnar á Íslandi í hruninu? Hafi hún ekki gert það, var væntanlega um yfirsjón að ræða, enda gömul "viðskiptablöð" ekki lengur til á veraldarvefnum. Þau má samt finna á söfnum. Kynnið ykkur Viðskiptablaðið frá 10. og 17. desember 2004!


Náttúruvísindi eða náttúruhyggja. Um lúpínu o.fl.

Af og til blossar upp umræða um lúpínu, þar sem sterkar skoðanir eru með og á móti. Sama á við um skógrækt. Stundum er um að ræða málefnalegar rökræður og skoðanaskipti byggð á þekkingu. Í háskólasamfélaginu væri æskilegt að umræða um þessi mál og önnur, byggði á þekkingu og niðurstöðum vísindalegra rannsókna. Mikill misbrestur vill verða á því. Stundum virðist mér, að sumar háskóladeildir séu ríkar af kennslukröftum, sem stunda innrætingu eigin skoðana, stundum fordóma, fremur en örvun nemenda til þekkingarleitar, þar sem þeir læra að flokka heimildir eftir áreiðanleik þeirra.

Í umræðum um náttúruna ber á hálfgerðu kukli, dulhyggju. Hvalirnir eru allt að því mennskir, jafnvel ofurmennskir, og eiga því að njóta sams konar friðhelgi og Homo sapiens. Jafnvel er til fólk, sem er fylgjandi dauðarefsingu í mannheimum, en á móti því að kona sem gengur með ungt fóstur, fái að ráða því hvort hún fullnusti burðinn eða láti eyða. Eins hygg ég vera til fólk, sem er fylgjandi dauðarefsingu, en vill alfriða hvali. Ég held að við getum verið sammála um, að slíkar skoðanir séu ekki vísindalegs eðlis, heldur tilfinningalegs- og siðferðilegs. Trúmál koma þarna oftar en ekki við sögu. Rökhugsun er gjarnan fjarverandi.

Í umræðu um lúpínu virðast sumir dæma tegundina óalandi og óferjandi út um bílglugga, sbr. Hall Magnússon, Framsóknarmann. Ég hef fylgst náið með lifun og dauða fjögurra lúpínuplantna í vel grónu landi, þ.e. lágvöxnu birkkjarri. Þessar plöntur juku aldrei kyn sitt, þær breiddust ekki út, engar fræplöntur komust á legg, þótt sauðfé kæmist hvergi að, enda þéttur mosasvörður í kjarrinu. Þessar fjórar plöntur dóu svo hver af annarri í hárri elli. Minnir mig, að dauða þeirra allra hafi borið að fyrir tvítugt. Þessi reynslusaga segir mér, að þeir "náttúrufræðingar", sem halda því fram, að lúpína muni breiðast um allt Ísland, verði hún ekki stöðvuð, styðjast ekki við vísindi heldur bábiljur. Sama á við um náttúrufræðinga, sem dæma lúpínuna til dauða ofan ákveðinnar hæðarlínu eða á láglendari svæðum, sem stjórnkerfið hefur náð fullum yfirráðum yfir og byggja þessa dauðadóma á tilvitnunum í sérvalin paragröf í alþjóðasamningum, sem íslenskir ráðherrar hafa oftar en ekki undirritað ólesna.

Andstaðan við lúpínuna byggist hjá flestum þannig sinnuðum á því, að hún sé framandi tegund, óíslensk. Minnir óneitanlega á hugsjónir þjóðernisjafnaðarmanna í Þýskalandi millistríðsáranna, sem sóttu m.a. skoðanir í forðabúr "vísindamennsku" hjá þýska dýrafræðingnum Ernst Häckel (1834-1919). Häckel gaf visfræðinni nafn  "Ecologi".  Hann hafnaði skynsemishyggju Upplýsingaraldar, en aðhylltist í hennar stað einhyggju (Monism), sem er frumspekileg kenning fremur en vísindakenning. Einhyggjan gengur út frá því, að raunveruleikinn sé ein órjúfanleg heild, án nokkurra sjálfstæðra þátta og að allt ráðist af náttúruöflunum. Gaiu kenningin, um að plánetan sé ein lifandi vera, er einhyggjan í sinni tærustu mynd. Upphaf vistfræðinnar markar samruna tveggja frumspekilegra hugmynda, sem báðar hafa reynst lífsseigar kennisetningar í náttúruvernd og vistfræði: Annars vegar hugmyndarinnar um "jafnvægi í náttúrunni" og hins vegar um "einingu (órofa heild) náttúrunnar". Jafnvægið í náttúrunni er hins vegar í raun ekki til. Eðli náttúrunnar er stöðug átök andstæðra afla, uppbyggingar og niðurrifs. Með tilvísun til ímyndaðs jafnvægis í náttúrunni leyfa menn sér að rökstyðja allan fjandann. Menn mega svo hafa sínar skoðanir á því, hvort jörðin sé ein lífvera eður ei, vart verður rætt um slíkt á vísindalegum grunni. Um Häckel, upphaf vistfræði og sameiginlegt upphaf hennar og nazismans má lesa á slóðinni http://www.skog.is  Þar er tímamótagrein eftir Aðalstein Sigurgeirsson, sem birtist reyndar í 2.tbl Skógræktarritsins frá árinu 2005. Greinin ber yfirskriftina: "Framandi og ágengar trjátegundir í íslenskum skógum - raunveruleg, aðsteðjandi eða ímynduð ógn". Greinin er svo góð, að í kjölfar hennar fór í gang í vissum kreðsum ófrægjingarherferð gegn nefndum Aðalsteini. Enn þann dag í dag, er Aðalsteinn talinn óalandi og óferjandi í hópi gerfivísindamanna á náttúrufræðasviði. Má mikið vera, ef hann fær ekki áminningu frá Umhverfisráðherra fyrir rangar skoðanir. Kannski fáum við að sjá "aparéttarhöld" yfir Aðalsteini, sbr. Darwin karlinn. Grein þessi var kannski of framsækin fyrir Ísland 2005, en vonandi verður hún framvegis skyldulesning við líffræði- og landfræðiskor HÍ og hjá öllum nemendum á fyrsta ári í LBHÍ á Hvanneyri. Manni skilst allavega, að meiri jarðvegur sé nú fyrir framsækna, gagnrýna hugsun en var fyrir hrun. Lestur greinarinnar verkar eins og ónæmisaðgerð gagnvart hégiljum og gerfivísindum, sem stundum eru talin til náttúruvísinda, en hvorttveggja lifir góðu lífi í báðum skólum, þótt auðvitað sé ég ekki þar með að segja, að kennaralið þeirra eins og það leggur sig, sé undir sömu sökina selt.

Svo sem nærri má geta vill vegurinn frá iðkun náttúruvísinda á grundvelli vistfræðinnar vera æðistuttur yfir í dulhyggju, sem byggir ekki á vísindum, heldur módelum og kennisetningum, sem og áðurnefndri hugsanaskekkju um jafnvægi í náttúrunni. Þessa moðsuðu og gerfivísindi vil ég kalla Náttúruhyggju. Náttúruhyggjan er því miður ráðandi ekki aðeins innan margra frjálsra félagasamtaka, svo sem Green Peace, heldur líka, a.m.k. hér á Íslandi, innan sumra ríkisstofnana, svo sem Náttúrufræðistofnunar og á sér valdamikla stuðningsmenn innan Umhverfisstofnunar og Umhverfisráðuneytisins, að ónefndum ýmsum menntastofnunum. Ég var á sínum tíma andstæðingur stofnunar sérstaks Umhverfisráðuneytis í okkar litla landi. Ég óttaðist að dulhyggja myndi, andstætt náttúruvísindum, verða leiðarhnoð afla, sem ná myndu allt inní Umhverfisráðuneytið. Svarið birtist okkur nú m.a. í offorsi Umhverfisráðherra gegn lúpínu og skógarkerfli, tegundum, sem þetta lið (fyrir utan Umhverfisráðherra sem virðist vera orðinn  verkfæri í höndum forstjóra NÍ) veit vel, að ekki er hægt að útrýma, en notar í þágu ofsókna gegn skógrækt og landgræðslu. Landgræðslustjóri virðist hafa kosið að kyssa á vöndinn, þótt hann hafi virst ráðvilltur og hálfruglaður á blaðamannafundi með "lúpínunefndinni". Skógræktarmenn hafa tekið til varna. Hafi þeir þökk fyrir!

Nú má nærri geta, að fleira spilar inní við ákvarðanatöku og skoðanamyndun á umhverfissviði, en átökin á milli náttúruhyggju og náttúruvísinda. Kalt hagsmunamat t.d. Getur þannig verið, að Landgræðsla ríkisins láti sér lynda, að sá lúpínu með annarri hendinni, en eitra fyrir henni með hinni, ef þannig tvískinnungur gæti orðið til þess að auka heildarumsvif stofnunarinnar? Eins veltir maður því fyrir sér, hvort miklar sértekjur Náttúrufræðistofnunar Íslands og einstakra sérfræðinga hennar í tengslum við virkjanaframkvæmdir hafi árhrif á áherslur stofnunarinnar í verkefnavali, þegar hún velur sér fórnarlömb til eineltis. Þannig finnst mér Landsvirkjun sleppa tiltölulega vel við hugmyndafræðilegar ofsóknir sérfræðinga Náttúrufræðistofnunar, en skógræktaraðilar hins vegar verða þeim mun meira fyrir hnútuköstum, enda hafa þeir verið ófúsir að greiða verndarfé til Náttúrufræðistofnunar og góðu heilli talið fé sínu betur varið til að bæta landið. Karl Marx sagði, að efnahagslífið (peningarnir) væru undirstaða stjórnmála í hverju landi, en þetta vita allir Íslendingar í dag.

Getur verið að ofsóknirnar gegn lúpínu og skógarkerfli, séu bara upphitun fyrir ofsóknir gegn allri þeirri starfsemi (les:skógrækt), sem raskar ásýnd landsins, þeirri ásýnd, sem 1000 ára ofbeit hefur skapað? 

 


Um bloggið

Sigvaldi Ásgeirsson

Höfundur

Sigvaldi Ásgeirsson
Sigvaldi Ásgeirsson
Skógarbóndi og skógfræðingur búsettur í Reykholtsdal
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband