Náttúruvísindi eða náttúruhyggja. Um lúpínu o.fl.

Af og til blossar upp umræða um lúpínu, þar sem sterkar skoðanir eru með og á móti. Sama á við um skógrækt. Stundum er um að ræða málefnalegar rökræður og skoðanaskipti byggð á þekkingu. Í háskólasamfélaginu væri æskilegt að umræða um þessi mál og önnur, byggði á þekkingu og niðurstöðum vísindalegra rannsókna. Mikill misbrestur vill verða á því. Stundum virðist mér, að sumar háskóladeildir séu ríkar af kennslukröftum, sem stunda innrætingu eigin skoðana, stundum fordóma, fremur en örvun nemenda til þekkingarleitar, þar sem þeir læra að flokka heimildir eftir áreiðanleik þeirra.

Í umræðum um náttúruna ber á hálfgerðu kukli, dulhyggju. Hvalirnir eru allt að því mennskir, jafnvel ofurmennskir, og eiga því að njóta sams konar friðhelgi og Homo sapiens. Jafnvel er til fólk, sem er fylgjandi dauðarefsingu í mannheimum, en á móti því að kona sem gengur með ungt fóstur, fái að ráða því hvort hún fullnusti burðinn eða láti eyða. Eins hygg ég vera til fólk, sem er fylgjandi dauðarefsingu, en vill alfriða hvali. Ég held að við getum verið sammála um, að slíkar skoðanir séu ekki vísindalegs eðlis, heldur tilfinningalegs- og siðferðilegs. Trúmál koma þarna oftar en ekki við sögu. Rökhugsun er gjarnan fjarverandi.

Í umræðu um lúpínu virðast sumir dæma tegundina óalandi og óferjandi út um bílglugga, sbr. Hall Magnússon, Framsóknarmann. Ég hef fylgst náið með lifun og dauða fjögurra lúpínuplantna í vel grónu landi, þ.e. lágvöxnu birkkjarri. Þessar plöntur juku aldrei kyn sitt, þær breiddust ekki út, engar fræplöntur komust á legg, þótt sauðfé kæmist hvergi að, enda þéttur mosasvörður í kjarrinu. Þessar fjórar plöntur dóu svo hver af annarri í hárri elli. Minnir mig, að dauða þeirra allra hafi borið að fyrir tvítugt. Þessi reynslusaga segir mér, að þeir "náttúrufræðingar", sem halda því fram, að lúpína muni breiðast um allt Ísland, verði hún ekki stöðvuð, styðjast ekki við vísindi heldur bábiljur. Sama á við um náttúrufræðinga, sem dæma lúpínuna til dauða ofan ákveðinnar hæðarlínu eða á láglendari svæðum, sem stjórnkerfið hefur náð fullum yfirráðum yfir og byggja þessa dauðadóma á tilvitnunum í sérvalin paragröf í alþjóðasamningum, sem íslenskir ráðherrar hafa oftar en ekki undirritað ólesna.

Andstaðan við lúpínuna byggist hjá flestum þannig sinnuðum á því, að hún sé framandi tegund, óíslensk. Minnir óneitanlega á hugsjónir þjóðernisjafnaðarmanna í Þýskalandi millistríðsáranna, sem sóttu m.a. skoðanir í forðabúr "vísindamennsku" hjá þýska dýrafræðingnum Ernst Häckel (1834-1919). Häckel gaf visfræðinni nafn  "Ecologi".  Hann hafnaði skynsemishyggju Upplýsingaraldar, en aðhylltist í hennar stað einhyggju (Monism), sem er frumspekileg kenning fremur en vísindakenning. Einhyggjan gengur út frá því, að raunveruleikinn sé ein órjúfanleg heild, án nokkurra sjálfstæðra þátta og að allt ráðist af náttúruöflunum. Gaiu kenningin, um að plánetan sé ein lifandi vera, er einhyggjan í sinni tærustu mynd. Upphaf vistfræðinnar markar samruna tveggja frumspekilegra hugmynda, sem báðar hafa reynst lífsseigar kennisetningar í náttúruvernd og vistfræði: Annars vegar hugmyndarinnar um "jafnvægi í náttúrunni" og hins vegar um "einingu (órofa heild) náttúrunnar". Jafnvægið í náttúrunni er hins vegar í raun ekki til. Eðli náttúrunnar er stöðug átök andstæðra afla, uppbyggingar og niðurrifs. Með tilvísun til ímyndaðs jafnvægis í náttúrunni leyfa menn sér að rökstyðja allan fjandann. Menn mega svo hafa sínar skoðanir á því, hvort jörðin sé ein lífvera eður ei, vart verður rætt um slíkt á vísindalegum grunni. Um Häckel, upphaf vistfræði og sameiginlegt upphaf hennar og nazismans má lesa á slóðinni http://www.skog.is  Þar er tímamótagrein eftir Aðalstein Sigurgeirsson, sem birtist reyndar í 2.tbl Skógræktarritsins frá árinu 2005. Greinin ber yfirskriftina: "Framandi og ágengar trjátegundir í íslenskum skógum - raunveruleg, aðsteðjandi eða ímynduð ógn". Greinin er svo góð, að í kjölfar hennar fór í gang í vissum kreðsum ófrægjingarherferð gegn nefndum Aðalsteini. Enn þann dag í dag, er Aðalsteinn talinn óalandi og óferjandi í hópi gerfivísindamanna á náttúrufræðasviði. Má mikið vera, ef hann fær ekki áminningu frá Umhverfisráðherra fyrir rangar skoðanir. Kannski fáum við að sjá "aparéttarhöld" yfir Aðalsteini, sbr. Darwin karlinn. Grein þessi var kannski of framsækin fyrir Ísland 2005, en vonandi verður hún framvegis skyldulesning við líffræði- og landfræðiskor HÍ og hjá öllum nemendum á fyrsta ári í LBHÍ á Hvanneyri. Manni skilst allavega, að meiri jarðvegur sé nú fyrir framsækna, gagnrýna hugsun en var fyrir hrun. Lestur greinarinnar verkar eins og ónæmisaðgerð gagnvart hégiljum og gerfivísindum, sem stundum eru talin til náttúruvísinda, en hvorttveggja lifir góðu lífi í báðum skólum, þótt auðvitað sé ég ekki þar með að segja, að kennaralið þeirra eins og það leggur sig, sé undir sömu sökina selt.

Svo sem nærri má geta vill vegurinn frá iðkun náttúruvísinda á grundvelli vistfræðinnar vera æðistuttur yfir í dulhyggju, sem byggir ekki á vísindum, heldur módelum og kennisetningum, sem og áðurnefndri hugsanaskekkju um jafnvægi í náttúrunni. Þessa moðsuðu og gerfivísindi vil ég kalla Náttúruhyggju. Náttúruhyggjan er því miður ráðandi ekki aðeins innan margra frjálsra félagasamtaka, svo sem Green Peace, heldur líka, a.m.k. hér á Íslandi, innan sumra ríkisstofnana, svo sem Náttúrufræðistofnunar og á sér valdamikla stuðningsmenn innan Umhverfisstofnunar og Umhverfisráðuneytisins, að ónefndum ýmsum menntastofnunum. Ég var á sínum tíma andstæðingur stofnunar sérstaks Umhverfisráðuneytis í okkar litla landi. Ég óttaðist að dulhyggja myndi, andstætt náttúruvísindum, verða leiðarhnoð afla, sem ná myndu allt inní Umhverfisráðuneytið. Svarið birtist okkur nú m.a. í offorsi Umhverfisráðherra gegn lúpínu og skógarkerfli, tegundum, sem þetta lið (fyrir utan Umhverfisráðherra sem virðist vera orðinn  verkfæri í höndum forstjóra NÍ) veit vel, að ekki er hægt að útrýma, en notar í þágu ofsókna gegn skógrækt og landgræðslu. Landgræðslustjóri virðist hafa kosið að kyssa á vöndinn, þótt hann hafi virst ráðvilltur og hálfruglaður á blaðamannafundi með "lúpínunefndinni". Skógræktarmenn hafa tekið til varna. Hafi þeir þökk fyrir!

Nú má nærri geta, að fleira spilar inní við ákvarðanatöku og skoðanamyndun á umhverfissviði, en átökin á milli náttúruhyggju og náttúruvísinda. Kalt hagsmunamat t.d. Getur þannig verið, að Landgræðsla ríkisins láti sér lynda, að sá lúpínu með annarri hendinni, en eitra fyrir henni með hinni, ef þannig tvískinnungur gæti orðið til þess að auka heildarumsvif stofnunarinnar? Eins veltir maður því fyrir sér, hvort miklar sértekjur Náttúrufræðistofnunar Íslands og einstakra sérfræðinga hennar í tengslum við virkjanaframkvæmdir hafi árhrif á áherslur stofnunarinnar í verkefnavali, þegar hún velur sér fórnarlömb til eineltis. Þannig finnst mér Landsvirkjun sleppa tiltölulega vel við hugmyndafræðilegar ofsóknir sérfræðinga Náttúrufræðistofnunar, en skógræktaraðilar hins vegar verða þeim mun meira fyrir hnútuköstum, enda hafa þeir verið ófúsir að greiða verndarfé til Náttúrufræðistofnunar og góðu heilli talið fé sínu betur varið til að bæta landið. Karl Marx sagði, að efnahagslífið (peningarnir) væru undirstaða stjórnmála í hverju landi, en þetta vita allir Íslendingar í dag.

Getur verið að ofsóknirnar gegn lúpínu og skógarkerfli, séu bara upphitun fyrir ofsóknir gegn allri þeirri starfsemi (les:skógrækt), sem raskar ásýnd landsins, þeirri ásýnd, sem 1000 ára ofbeit hefur skapað? 

 


Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Aðalsteinn Sigurgeirsson

Sæll Séra Sigvaldi, 'skógarprestur'!

Hér er hlekkur inn á grein mína sem þú vitnaðir til:

http://skog.is/images/stories/frettir/2010/greinag-framandi.pdf

Aðalsteinn Sigurgeirsson, 4.5.2010 kl. 18:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigvaldi Ásgeirsson

Höfundur

Sigvaldi Ásgeirsson
Sigvaldi Ásgeirsson
Skógarbóndi og skógfræðingur búsettur í Reykholtsdal
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 19
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 19
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband