Forstjóri Kauphallarinnar varaði við áherslu á hert eftirlit í árslok 2004.

Sjálfur hef ég ekki lesið "Sannleiksskýrsluna", en það sem ég hef heyrt af henni, bendir til þess, að um vandaða vinnu hafi verið að ræða hjá fólki, sem falið var vandasamt verk. Ekki veit ég hvort skýrslan sú  gerði að umfjöllunarefni, það sem ég vil ræða núna.

Þegar ég var að taka til hjá mér fyrir nokkru, rakst ég á gulnað Viðskiptablað frá 10. og 17. desember 2004. Báðar dagsetningar eru á þessu sama tbl., sem hlýtur að gefa því nokkurt söfnunargildi. Vitnað er til vefsíðunnar www.vb.is. Þegar farið er á vefsíðu þessa, kemur í ljós, að eldri tölublöð en frá árinu 2007 er ekki að finna þar. En í þessu gulnaða eintaki, sem skolaði á fjörur mínar, getur að líta viðtal við Þórð Friðjónsson, þáverandi og núverandi forstjóra Kauphallarinnar á Íslandi. Gefum honum orðið:

"Það er ábyggilega algjört einsdæmi í nokkru þróuðu hagkerfi að útrásarfyrirtæki hafi á nokkrum árum aukið verðmæti sitt um sem nemur 50% af landsframleiðslu. Þetta er örugglega heimsmet í útrás" ...."Mér finnst það ákveðið áhyggjuefni í umræðunni í hve mikilli sókn eftirlitsþátturinn hefur verið. Það á að vera efst á blaði að skaða ekki þá þætti í umhverfinu sem keyra okkur áfram og skila okkur árangri"

Takið eftir, að þarna er þáverandi - og núverandi - forstjóri Kauphallar Íslands að vara við meira eftirliti með fjármálamarkaðnum í árslok 2004, einmitt þegar enn var tími til að stinga á kýlinu.

Blaðamaðurinn, Ólafur Teitur Guðnason, spyr: "Þrátt fyrir þennan styrk sem þú nefnir er næstum helmingur allrar hlutabréfaveltu og næstum helmingur alls verðmætis hlutabréfa í kauphöllinni í aðeins þremur fyrirtækjum: Íslandsbanka, KB banka og Landsbankanum. er það í lagi?"

Forstjóri Kauphallarinnar svarar: "Það væri í sjálfu sér ágætt að fá fleiri fyrirtæki inn á markaðinn og nokkur fyrirtæki hafa lýst yfir áformum um það, t.d. Hagar, Avion Group, Tölvumyndir og jafnvel Eimskip, auk erlendra fyrirtækja sem hafa sett sig í samband við okkur. Á hinn bóginn hefur markaðurinn verið að dýpka samkvæmt nánast öllum mælikvörðum. Varðandi fjöldann þá hafa fyrirtæki hér verið að styrkja sig með því að kaupa talsvert af skráðum og óskráðum fyrirtækjum, þannig að fjölbreytnin á bak við þau hefur aukist."

Er maðurinn að halda því fram, að eignarhaldsfélög eins og bankarnir voru þarna orðnir með krosseignatengslum og fleiri viðvörunarmerkjum, auk annarra þekktra "eignarhaldsfélaga", hafi verið jákvæð fyrirbæri og "aukið fjölbreytnina" á markaðnum?

Blaðamaður spyr: Þegar umsvifin aukast hlýtur þörfin fyrir öflugt eftirlit að aukast. Það hefur dálítið borið á gagnrýni þess efnis að eftirlitið sé ekki nægilega öflugt, til dæmis varaðandi innherjaviðskipti. Hvernig svarar þú því?

Kauphallarforstjórinn svarar: "Innherjamálin eru alfarið á vegum fjármálaeftirlitisins. Við fylgjumst bara með og gerum eftirlitinu viðvart ef við teljum tilefni til. En innherjaviðskipti eru flókinn og erfiður málaflokkur alls staðar í heiminum. Við höfum eflst á þessu sviði og getum borið höfuðið hátt." (það var nefnilega það! innskot mitt) "Vandamálin sem hafa birst á öðrum mörkuðum eru miklu stærri og alvarlegri en það sem við höfum séð hér, þrátt fyrir þessar umkvartanir sem berast um að herða megi á hér og þar."

Semsagt, allt í lukkunnar velstandi hérlendis, þótt sums staðar erlendis geti verið vandamál á þessu sviði. Við erum fremst og best, það gerir víkingaeðlið!

Þá spyr blaðamaður:  Getur verið að það sé einmitt vegna þess að vandamálin komi ekki upp á yfirborðið hér?

"Ég held að það sé alrangt. Við höfum hér rafrænt eftirlitskerfi sem er það sama og í kauphöllum á öllum Norðurlöndunum og við könnum allar viðvaranir sem þetta kerfi gefur um viðskipti sem kunna að vera vafasöm". ....."Einkenni okkar eru sveigjanleiki, frumkvæði og viðbragðssnerpa í efnahagslífinu. Við höfum náð gríðarlegum árangri hvað þetta varðar og þetta hefur meðal annars skilað þessum mikla árangri í útrásinni, sem hefur skilað okkur gríðarlegum efnahagslegum ávinningi og verðmætasköpun í þjóðarbúinu" (hverjir skyldu hafa notið þeirrar "veriðmætasköpunar" þegar upp var staðið? - innskot mitt) ..."Við þurfum að mínu viti að gæta okkar mjög vel á því að fara ekki í hinar öfgarnar og skaða þetta umhverfi sem hefur skapað svo mikil verðmæti fyrir okkur á undanförnum árum. Mér finnst það ákveðið áhyggjuefni í umræðunni að undanförnu í hve mikilli sókn eftirlitsþátturinn hefur verið."

Takið eftir því, að þetta sagði þáverandi og núverandi forstjóri Kauphallar Íslands í árslok 2004, þegar enn var tími til að bregðast við. Þar hjó sá er hlífa skyldi! Hann talar líka um bóluna, sem blásin var upp á þessum tíma með innherjaviðskiptum, krosseignatengslum og markaðsmisnotkun, og  blasti við öllum, sem vildu sjá m.a. erlendum aðilum, hann talar um þetta sem "verðmætasköpun"!!!

Í framhaldi af þessum orðum Kauphallarforstjórans spyr blm.: Finnst þér við komin hættulega nálægt því að stífla vélina?

Svar Þórðar Friðjónssonar: "Mér hefur sýnst - þegar ég hef rætt þessi mál í ýmsum nefndum og öðru starfi - að pendúllinn hafi sveiflast. Hagkerfið hefur verið endurskapað á síðustu 15 árum út frá sjónarmiðum um frelsi og sem mest svigrúm fyrir athafnasemi." (ekki laust við trúarlega afstöðu. Varla hefur hugmyndafræðilegur ágreiningur milli Þórðar Friðjónssonar og Davíðs Oddssonar valdið því að sá síðarnefndi lagði Þjóðhagsstofnun niður - innskot mitt) "Þetta hefur skilað gríðarlega miklum árangri og við höfum náð þeim þjóðum sem standa fremstar varðandi sveigjanleika, frumkvæði og snerpu. Áður fyrr vorum við alltaf 10-20 árum á eftir þeim." (betur að svo hefði verið áfram - innskot mitt)  "Núna finnst mér pendúllinn hafa farið dálítið til baka í þá áttina að það þurfi að efla regluumhverfið og það þurfi jafnvel að gera með lögum, boðum og bönnum. Mér finnst umræðan vera gengin óþægilega langt í þessa átt. Við eigum að hafa sjónarmiðið um traust og trúverðugleika að leiðarljósi en um leið verður að mínu viti að vera efst á blaði, að skaða ekki þá þætti í umhverfinu sem keyra okkur áfram og skila okkur árangri."

Þessi orð vekja með mér kjánahroll. Getur verið, að þáverandi og núverandi forstjóri Kauphallarinnar hafi barist innan kerfisins með oddi og egg gegn auknu eftirliti með fjármálastarfsemi í landinu, einmitt þegar forstjórar bankanna og "eignarhaldsfélaganna" voru búnir að taka stefnuna á að byggja upp Ponzi skím, pyramída, sem var holaður að innan og skilaði gerendum gífurlegum bónusgreiðslum, jafnframt því sem þeir sugu úr honum innihaldið og komu fyrir tryggilega í aflandsskattaskjólum?

Fjallaði "Sannleiksnefndin" ekki um þátt núverandi forstjóra Kauphallarinnar á Íslandi í hruninu? Hafi hún ekki gert það, var væntanlega um yfirsjón að ræða, enda gömul "viðskiptablöð" ekki lengur til á veraldarvefnum. Þau má samt finna á söfnum. Kynnið ykkur Viðskiptablaðið frá 10. og 17. desember 2004!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigvaldi Ásgeirsson

Höfundur

Sigvaldi Ásgeirsson
Sigvaldi Ásgeirsson
Skógarbóndi og skógfræðingur búsettur í Reykholtsdal
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 19
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 19
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband